Daginn,
Í vikunni var fyrsta 100 Gbps tengingin við RIX virkjuð. Það er RÚV sem
tengist á 100 Gbps við tengipunktinn á Mílu hótel. Það er linkur á
sambandinu, en eins og sjá má á umferðargröfum þá er ekki komin nein
umferð á sambandið. Vonandi sjáum við bráðlega notkun á því sambandi
enda mjög spennandi tímamót í sögu RIX.
Við höfum staðið okkur mjög illa í viðhaldi á rix.is heimasíðunni, enda
lítur hún út eins og eitthvað sem var hannað á tímum Netscape Navigator.
Það t.d. kemur ekki fram þar að RIX hefur lengi boðið upp á samnýtingu á
tengingum (channel bonding). Nova er í dag með 2x10G tengingar við bæði
Tæknigarð og Katrínartún. Þá er greitt fyrir hvert port sem er notað, en
á móti öðrum og í lista yfir tengda aðila kemur bara fram ein tenging.
Samnýting porta er studd á öllum stöðum, með eða án LACP.
Nýr RIX vefur er á dagskrá, en það er að ýmsu að huga. Það hefur verið
óskað eftir betri umferðargröfum, en eitt sem hamlar okkur þar er að
gömlu Cisco Nexus svissarnir styðja ekki sFlow, en þær lausnir sem við
höfum verið að skoða fyrir gröf styðja bara sFlow. Mögulega yrðu fyrst
um sinn bara gerð gröf fyrir nýju svissana og þær tengingar sem þar eru.
Einnig hefur verið spurt út í möguleikann á því að RIX setji upp og reki
rútuþjóna (route servers) eins og eru á flestum stærri IX'um. Það myndi
klárlega hjálpa þeim sem eiga erfitt með að viðhalda samböndum og
filterum fyrir hvert og eitt peering samband á RIX, en á móti kemur að
þá færist ábyrgðin og vinnan yfir á RIX. Viðræður um þetta mál hafa sýnt
að sumir vantreysta rútuþjónum eftir slæma reynslu af þeim. Ef allir
tengdir aðilar nýta sér bara rútuþjón fyrir sambönd þá þarf lítið út af
að bregða til að stoppa stóran hluta af umferðinni um RIX, þannig að við
stígum varlega til jarðar með þetta.
Hvaða skoðun hefur fólk á forgangsröðun?
.einar