Til ritstjórnar Morgunblaðsins Sælir, Mig langaði, sem lesandi Morgunblaðsins, að gera alvarlegar athugasemdir við óábyrgan fréttaflutning ykkar af bilunum á netsambandi Og Vodafone í gærkvöldi. Fréttirnar virðast ónákvæmar, villandi og að sumu leyti afar óviðeigandi. Í fyrsta lagi er það frétt sem kom inn á mbl.is klukkan 17:58 í gær (20. maí) með fyrirsögninni "Netsamband við útlönd lá niðri". Umrædda frétt má lesa hér: http://www.mbl.is/mm/frettir/togt/frett.html?nid=1032540 Þessi frétt hefur ýmsa vankanta og eru þeir mismunandi alvarlegir. Í fyrsta lagi gefur fyrirsögnin sterklega í skyn að allt netsamband við útlönd liggi niðri, á meðan raunin er aðeins sú að samband Og Vodafone við N-Ameríku er niðri. Þessi villa skiptir ákaflega litlu máli, enda skilja fæstir lesendur muninn, að því er virðist. Önnur áberandi villa í fréttinni er sú, að árásin er sögð beinast gegn vefþjónum Og Vodafone, en það ætti nú að vera ljóst að svo var ekki (í fyrsta lagi var þetta ekki árás á vefþjóna í öðru lagi ekki árás á neitt hjá Og Vodafone, heldur viðskiptavin þeirra). Þessar rangfærslur hverfa þó í skuggann af því, að nafn viðkomandi viðskiptavinar (ISNIC) er nefnt í fréttinni, ekki einu sinni, heldur tvisvar. Þetta er í fyrsta lagi trúnaðarbrot af hálfu Og Vodafone (að gefa þetta upp til fjölmiðla) en ekki minna ábyrgðarleysi af ykkur sem fjölmiðli að birta það. Ég vil leggja sérstaka áherslu á að mér og fleirum finnst þetta afar óviðeigandi og mikið ábyrgðarleysi. Næsta frétt sem birtist bar fyrirsögnina "Mikil truflun á netsambandi viðskiptavina Og Vodafone", kom á mbl.is klukkan 21:14 í gær og má lesa hér: http://www.mbl.is/mm/frettir/togt/frett.html?nid=1032570 Hér er í rauninni ekki mikið að segja, fréttin er að miklu leyti byggð upp af sömu rangfærslunum og hin, auk þess að nefna nafn viðskiptavinarins tvisvar. Hér gildir einnig það sama um vefþjóna og netþjóna og orðunum jafnvel blandað saman þegar talað er um sama hlutinn. Ég vil, fyrir hönd allra áhugamanna um vöxt og þróun Internets á Íslandi, svo og ábyrgrar fréttamennsku, biðja ykkur að gæta ykkar betur í framtíðinni, því að staða ykkar sem stórs og virts fjölmiðils þýðir að þið eruð handhafar "fjórða valdsins" og leggur því gífurlega ábyrgð á ykkar herðar. Samrit sent: Póstlista tæknimanna (gurus) -- Með vinsemd og virðingu, Kristófer Sigurðsson kristo@kriz.to