Rótarnafnaþjónn á Íslandi
Ágætu félagar, Þótt flestir ykkar hafi sennilega frétt nú þegar fannst okkur viðeigandi að láta ykkur vita hér líka. Afsakanir til þeirra sem fá þetta í tveimur eintökum. Í siðustu viku var áralöngu baráttumáli ISNIC loksins landað með uppsetningu á K-rótarþjóni RIPE ("anycast instance") við RIX. Margir af þeim sem tengdir eru RIX hafa þegar gengið frá samtengingu, og aðrir að vinna í því. -- Menn geta notað CAOS RR til að prófa hvar þeirra K-root er niðurkomin: dig +norec @k.root-servers.net chaos txt id.server (sést reyndar líka á ping rtt :-) Læt hér fylgja fréttatilkynningu frá ISNIC/RIPE sem send verður fjölmiðlum í tilefni þessa: -- Marius --------------------------- Fréttatilkynning K-rótarþjónn settur upp á Íslandi. Þann 14. október sl. luku RIPE NCC (Réseaux IP Européens Network Coordination Centre) og Internet á Íslandi hf. (ISNIC) við að setja upp spegileintak ("mirror instance") af einum af rótarnafnaþjónum Netsins. Þetta eintak er sett upp við skiptipunkt íslenskrar netumferðar (RIX - Reykavík Internet Exchange) í Tæknigarði við Dunhaga. Rótarnafnaþjónn K er einn af 13 rótarnafnaþjónum Netsins sem sjá um að vísa uppflettingum léna á Netinu rétta leið. Þessir þjónar eru þannig mikilvægur grunnþáttur í virkni netsamskipta í heiminum. Rótarnafnaþjónarnir mynda miðhluta lénakerfis Netsins (DNS) sem notað er til að varpa nöfnum sem menn nota almennt yfir í hin eiginlegu vistföng á netinu sem tölvur og hugbúnaður nota til að komast leiðar sinnar. K þjónninn í Reykjavík er nýjasta eintakið af þeim sem RIPE NCC hefur sett upp undanfarið. Til að dreifa þessum eintökum um heiminn er notuð ný IP tækni (IP fjölvarp, "anycasting"). Með þessu móti fæst mjög örugg og dreifð tenging, sem er ónæmari fyrir ýmsum tegundum rekstartruflana, heldur en hefðbundnari leiðir til að tryggja rekstraröryggi. Vegna tenginga Íslands við umheiminn, er sérlega mikilvægt fyrir netrekstraraðila hér á landi að hafa greiðan aðgang að a.m.k einum rótarþjóni. Eðli þessarar tækni er þannig að missi menn alveg samband við alla rótarþjóna, verður að lokum einnig erfiðleikum bundið að hafa samband innanlands. ISNIC hefur þvi unnið að undirbúningi þess að fá eintak af rótarþjóni til landsins í tvö ár. K þjónninn varð fyrir valinu og sem fyrr segir lauk þeirri vinnu með uppsetingu hans við RIX. RIPE NCC hefur rekið K þjóninn í London síðan 1997, og síðan 2003 hafa verið sett upp eintök af K í Amsterdam, Frankfurt, Aþenu, Doha og Mílanó, og nú síðast í Reykjavík. Frekari upplýsingar um K rótarþjóninn má finna á http:/k.root-servers.org/, um RIPE NCC á http://ripe.net/, um Internet á Íslandi (ISNIC) á http://isnic.is/ og um Reykjavík Internet Exchange (RIX) á http://rix.is/. ---------------------------
participants (1)
-
Marius Olafsson