Góðan dag! Lög nr. 81/2003 um fjarskipti tóku gildi í dag. Lögin má lesa á vef Alþingis, www.althingi.is, á slóðinni http://www.althingi.is/lagas/nuna/2003081.html Sérstaklega vil ég benda listamönnum á nýja grein um "Óumbeðin fjarskipti" sem taka einnig á tölvupósti (IX kafli (Vernd persónuupplýsinga og friðhelgi einkalífs), 46. grein). 46. gr. Óumbeðin fjarskipti. Notkun sjálfvirkra uppkallskerfa, símbréfa eða tölvupósts fyrir beina markaðssetningu er einungis heimil þegar áskrifandi hefur veitt samþykki sitt fyrir fram. Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. er heimilt að nota tölvupóstfang við sölu á vörum eða þjónustu fyrir beina markaðssetningu á eigin vörum eða þjónustu ef viðskiptavinum er gefinn kostur á að andmæla slíkri notkun tölvupóstfanga þeim að kostnaðarlausu þegar skráning á sér stað og sömuleiðis í hvert sinn sem skilaboð eru send hafi viðskiptavinurinn ekki þegar í upphafi hafnað slíkri notkun. Að öðru leyti en mælt er fyrir í 1. og 2. mgr. eru óumbeðin fjarskipti í formi beinnar markaðssetningar óheimil til þeirra áskrifenda sem óska ekki eftir að taka á móti þeim. Óheimilt er að senda tölvupóst sem þátt í beinni markaðssetningu þar sem nafn og heimilisfang þess sem stendur að markaðssetningu kemur ekki skýrt fram. Notendur sem nota almenna talsímaþjónustu sem lið í markaðssetningu skulu virða merkingu í símaskrá sem gefur til kynna að viðkomandi áskrifandi vilji ekki slíkar hringingar í símanúmer sitt. Sem þýðir (skv. minni túlkun): Bein markaðssetning með tölvupósti er óheimil. Ef þú gefur upp netfang er ekki heimilt að nota það til beinnar markaðssetningar nema þér hafi verið gefinn kostur á að sleppa við slíkar sendingar (þér að kostnaðarlausu). Um viðurlög er fjallað í 74. grein laganna (1. - 3. mgr.) -- Kveðja, Tolli tolli@tol.li