Stjórn ISNIC samþykkti fyrir skömmu á opnum stjórnarfundi með starfsmönnum, að aflétta skilyrði um innlendan tengilið rétthafa fyrir sitt leyti. Um formbreytingu yrði að ræða á reglum ISNIC þar sem skilyrði um innlendan tengilið er afnumið í þeim tilfellum þar sem skráning fer fram í gegnum erlendan umboðsmann. Skilyrði um innlendan tengilið er því áfram í gildi ef um beina skráningu erlendra aðila er að ræða og jafnframt ef þeir skrá sig í gegnum innlendan umboðsaðila, þá er umboðsaðilinn eftir sem áður innlendi tengiliðurinn. Þessi nýja samþykkt er sem sagt opnun á farvegi fyrir erlend fyrirtæki og einstaklinga til að versla .is lén gegnum erlendan umboðsmann sem ISNIC væri fyrirfram búið að samþykkja og gera samning við. Regla 2.3.1 breytist skv. ofangreindu úr "Erlendur umsækjandi tilgreinir íslenskan umboðsmann sem tengilið rétthafa léns í skráningu sinni." í: "Erlendur umsækjandi skal tilgreina íslenskan, eða skráðan umboðsmann sem tengilið rétthafa léns." ISNIC er umhugað um að varðveita mikið traust og trúverðugleika .is rótarlénsins. Í þeim efnum skiptir áreiðanleiki Wohis grunnsins höfuðmáli. Samfara breytingunni mun ISNIC áskilja sér rétt til að hafna skráningum erlendis frá sem ekki uppfylla gæðakröfur ISNIC um fullnægjandi upplýsingar um rétthafann. Ástæða breytinganna er að gera erlendum aðilum sem vilja skrá .is lén kleift að eiga samskipti við þjónustuaðila á sínu svæði í stað þess að verða að tilgreina íslenskan tengilið. Eftir sem áður geta erlendir ríkisborgarar ekki skráð .is lén milliliðalaust. Gott væri að fá um þetta umræðu á Domain listanum. Í lokin má geta þess að banni við milliliðalausri skráningu erlendra aðila á sænska rótarléninu .se hefur verið aflétt með öllu, og löngu áður hafði sama breyting átt sér stað með .dk (danska) rótarlénið. Eftir stendur að .no (Noregur) leyfir ekki einstaklingum að skrá lén og .fi (Finnland) býr enn við mjög strangar reglur. ISNIC vill nútímavæða skráninguna án þess að láta af háum gæðakröfum nema síður sé. Kveðja, Jens Pétur Jensen hagfr. framkvæmdastjóri Internet á Íslandi hf. (ISNIC) Tæknigarði, Dunhaga 7 107 Reykjavik. Vefir: www.isnic.is, modernus.is og rix.is
participants (1)
-
Jens Petur Jensen