Sælir, Mér sýnist þessar reglur vera gríðarleg framför og fagna þeim. Eftirfarandi málsgrein veldur mér þó hugarangri: 3.6. Rétthafi léns er skuldbundinn til að bæta ISNIC allt tjón sem notkun lénsins getur valdið ISNIC. Er þetta ekki heldur frjálslega orðað? Dæmi: Ef ég skrái lén og hýsi þar fréttaefni - t.d. fréttir um Eitthvað Slæmt sem tengist ISNIC, þá getur það augljóslega valdið ISNIC tjóni. Getur máður átt von á að mbl.is og aðrir þurfi að borga ISNIC í hvert skipti sem slíkar fréttir birtast? Eða eigum við bara að ritskoða allt slæmt sem okkur dettur í hug að segja um ISNIC? Og ekki nóg með það... orðið "getur" vísar til mögulegs tjóns, ekki tjóns sem hefur átt sér stað. *Öll* lén má nota til að valda ISNIC tjóni af einhverju tagi, þ.a. ISNIC áskilur sér með þessu í raun rétt til að innheimta óskilgreindar bætur af öllum fyrir óorðinn hlut... Maður lendir semsagt í tómu rugli ef maður tekur þessa málsgrein bókstaflega, og er það ekki þannig sem maður á að túlka skilmála? Ath, ég er ekki að halda því fram að ég ætli að gagnrýna ISNIC fyrir eitt eða neitt (reyndar má halda því fram að ég sé að því núna), en mér finnst þetta ákvæði mjög einkennilegt. Hvaða vandamál átti það að leysa? Er ekki nauðsynlegt að orða það nákvæmar? Annað, smáatriði úr grein 8.2: Hafi lén verið lokað í 30 daga hjá ISNIC er það afmáð, réttur yfir léni fellur niður og lénið er laust til umsóknar á ný Mér finnst 30 dagar frekar stuttur tími. Annars bara fagna ég aftur stórbættum skilmálum. Það er gaman að sjá hversu mikið tillit ISNIC tók til umræðunnar sem átti sér stað hér á þessum lista. -- Bjarni R. Einarsson PGP: 02764305, B7A3AB89 bre@netverjar.is -><- http://bre.klaki.net/ Netverjar gegn ruslpósti: http://www.netverjar.is/baratta/ruslpostur/