Góða kvöldið -*- Marius Olafsson <marius@isgate.is> [ 2003-10-01 21:40 ]:
(1) Fyrst mætti auðvitað spyrja hvort við ættum yfirhöfuð að gera þetta? Þessi lén koma hvort eð er ekki til með að virka vel til að byrja með og er þetta ekki bara aukakostnaður fyrir íslendinga sem nú þegar eru með lén án séríslenskra stafa?
Það er mat ISNIC að ekki verði hjá því komist að skrá lén með séríslenskum stöfum undir .is. Brátt verður mönnum boðið upp á slíkt í almennu lénunum og fjöldi opinna þjóðarléna munu bjóða upp á slíkt. Við viljum síður neyða þá sem vilja lén með séríslenskum stöfum að skrá þau utan .is. Líklega eru u.þ.b 30% íslenskra léna þannig að þau væru með séríslenskum stöfum en ekki er gott að segja hversu mörg þeirra yrðu stofnuð.
Það er rétt að það væri hálf furðulegt að geta skráð nýsköpunarsjóður.com en bara nyskopunarsjodur.is, svo dæmi sé tekið. En það er alveg rétt að þetta er mjög mikill aukakostnaður. Ef þú ert með lén viltu að *allir* geti komist inn á það, og þessvegna væri mjög óskynsamlegt að vera ekki með skráð lén án séríslenskra stafa til þess að allir geti notað það. Líklegt er að íslenskur ferðamaður í Eþíópíu lendi í vandræðum með að slá inn fréttablaðið.is -- æskilegt er að frettabladid.is sé áfram skráð. Að byrja að bjóða uppá svona lén fylgir umtalsverður kostnaður eins og þú kemur að í þínu bréfi -- bæði þarf breytingar á tölvukerfum ISNIC sem og hýsingaraðila, en að mínu mati er ávinningurinn ekki í samræmi við það (þó að eflaust sé margur ósammála mér í því). Ég geri því ekki ráð fyrir að ISNIC og/eða hýsingaraðilar muni gefa afslátt af þessum lénum sé lénið án séríslenskra stafa þegar skráð. Ég sé því akkúrat enga hagkvæmni í þessu fyrir einn né neinn, og mjög lítið notagildi, en kannski er ég bara að horfa á neikvæðu hliðarnar. :-) Og hver veit nema ég sjái bjartari hliðar síðar meir, hvort sem það væri að eigin frumkvæði eða eftir ábendingar.
(2) Ofangreindir staðlar um útfærslu á þessum lénum gera ráð fyrir UNICODE stafamenginu <http://www.unicode.org/charts>. Það þýðir í raun að við verðum að velja hvaða stafi við viljum leyfa í íslenskum lénum. Gefin hafa verið út BCP á vegum CENTR og ICANN þar sem rök eru færð fyrir því að takmarka leyfilega stafi við þá sem notaðir eru innan viðkomandi lands. Sjá t.d. <http://www.icann.org/general/idn-guidelines-20jun03.htm>. Þetta er gert til að lámarka líkur á ruglingi þegar mjög líkir stafir eru skráðir, og til að minnka þörf fyrirtækja og einstaklinga til að skrá mörg lén til að ná yfir þekkt merki sín.
ISNIC leggur til að við takmörkum skráningu léna undir .IS við íslenska stafi eingöngu, þ.e. þæðö/ÞÆÐÖ áéýúíó/ÁÉÝÚÍÓ
Ekki sé ég þörf á fleiri stöfum, og af nógu öðru að hafa áhyggjur af svosem ef einhverjum dettur í hug að bæta fleiri sértáknum við í íslenskt stafróf (og hingað til höfum við verið að fækka í stafrófinu en ekki fjölga, ekki satt?)
(3) Hvernig á að hefja þessa úthlutun? Skiptar skoðanir eru á því hjá þeim sem undirbúa að taka upp þjóðleg lén um hvernig skuli standa að þvi að byrja úthlutun. Í grunninn eru tveir möguleikar;
a að skrá þessi lénum á nákvæmlega sama hátt og við skráum lén í dag þ.e. "fyrstur-kemur-fyrstur-fær" eða
b að viðurkenna þá staðreynd að þeir sem upphaflega sóttu um lén án íslenskra stafa hefðu gjarnan viljað fá þau *með* íslenskum stöfum ef þeim hefði staðið það til boða.
ISNIC leggur til að við gerum þetta samkvæmt síðari kostinum en með ákveðnum takmörkuðum yfirgangstíma (t.d. 6 mánuðir). Þetta er í raun mjög einföld leið fyrir okkur. Þegar við fáum beiðni um skráningu á þjóðlegu léni (þ.e. með íslenskum stöfum), þá umbreytum við nafninu skv eftirfarandi töflu:
þ -> th á -> a í -> i æ -> ae é -> e ó -> o ð -> d ý -> y ö -> o ú -> u
Ef rétthafi á léninu sem út kemur í þessari umbreytingu er sá hinn sami (sama kennitala) og á hinu umbeðna þjóðlega léni (eða ef umbreytta lénið er ekki skráð) þá er lénið veitt. Annars ekki.
Sem dæmi, ef aðli sækir um lénið 'þjóðarlén.is', þá er athugað hver rétthafi lénsins 'thjodarlen.is' og ef það er sami aðili, eða ef 'thjodarlen.is' er ekki skráð þá skráir ISNIC lénið 'þjóðarlén.is' og setur 'xn--jarln-esa9bxa1h.is' inn í DNS. Sé lénið 'thjodarlen.is' ekki til veitir skráning lénsins 'þjóðarlén.is' engann rétt á því nafni þ.e. rétturinn er *ekki* gagnkvæmur.
Að yfirgangstíma loknum verður enginn greinarmunur gerður á lénum með eða án íslenskra stafa.
Ég er sammála að æskilegt er að fara leið b í þessu, og 6 mánuðir finnst mér einnig hæfilegur tími. Þetta vekur hinsvegar upp aðra spurningu; er æskilegt að frysta úthlutanir á lénum sem byrja á xn- þangað til þetta hefur verið útfært og þar til yfirgangstíminn er liðinn, til að koma í veg fyrir "squatting" á þessum lénum? Strax í dag gæti einhver umkóðað vísir.is svo dæmi sé tekið og skrá xn-.... lén fyrir það. Einnig þyrfti að taka þetta til athuganar í tæknilegri útfærslu -- að ef þjóðarlén.is er skráð í ykkar gagnagrunn sé xn--jarln-esa9bxa1h.is ekki "laust" (þ.e. finnist ekki í whois). Whois gagnagrunnurinn þyrfti sumsé að þekkja báðar uppflettingar. -- Kveðja, Tolli tolli@tol.li