Ágætu félagar, Vinsamlega segið álit ykkar á eftirfarandi tillögum til smávægilegra breytinga á skráningarferli og á skráningarreglum .IS léna. Þetta er aðallega til einföldunar og til að reyna að færa feril nær þörfum þeirra sem nota þetta kerfi í dag. Endilega látið í ykkur heyra -- bæði með og á móti. ---- 1. Tengiliður rétthafa þarf ekki að vera einstaklingur (þ.e. getur verið "role object"). Krafa ISNIC um að þessi tengiliður sé einstaklingur er til óþurftar, og veldur ýmsum augljósum vandræðum. Nóg að krefjast að þetta sé íslenskur lögaðili (einstaklingur eða fyrirtæki). Athugið þó að þessu fylgir ákveðinn hætta fyrir rétthafa, vegna víðtækra möguleika tengiliðs rétthafa (þ.e. þess sem hefur lykilorð, eða aðgang að netfangi) til að breyta léninu, þ.m.t til að framselja það í hendur nýs rétthafa. 2. Rýmkaðar reglur um hvaða tengiliðir mega breyta upplýsingum um lén. Tengilið vegna nafnaþjóna verði leyft að breyta nafnaþjónum léns (þ.e. flytja lén). Þó þannig að einungis tengiliðir nafnaþjóna skráðra þjónustuaðila megi flytja lén (breyta nafnaþjónum). Upp koma m.a. dæmi þar sem gera þarf slíkar breytingar þegar vistunaraðili breytir eigin nafnaþjónum. 3. Rýmkaðar reglur um skráningu léna á erlenda rétthafa. Kröfur um umboðsmenn léna í eigu erlendra aðila verði felldar niður, og einungis gerð sú krafa að tengiliður rétthafa verði íslenskur lögaðili. Einnig verði erlendum aðilum gert kleyft að skrá lén, án þess að vísa í skráð vörumerki. Efasemdir eru uppi um hvort núverandi reglur fullnægi jafnræðisreglu (vegna aðildar okkar að Evrópska efnahagssvæðinu). ISNIC telur í raun ekki lengur þörf á slíkum takmörkunum, og óþarfi að mismuna aðilum á þennan hátt. 4. Skráðir vistunaraðilar geti tilkynnt ISNIC að þeir hafi hætt þjónustu við lén, og þar með farið fram á lokun þess. Þar með bætist við þriðja ástæða lokunar léns. Hingað til hefur lénum sem vistunaraðilar hætta að þjóna verið lokað vegna "tæknilegra vankanta á uppsetningu", sem er villandi fyrir rétthafa, þar sem hin raunverulega ástæða er að vistunaraðili er hættur þjónustu við lénið. 5 Frestur rétthafa léna, sem ekki er haldið við tæknilega, til að bæta úr áður en léni er lokað er breytt úr 14 dögum í 60. Breytt til samræmis við raunveruleika, þar sem 14 daga festur reyndist allt of stuttur. -- Marius Olafsson ISNIC ltd. http://www.isnic.is Taeknigardi +354 525 4747 Dunhaga 5 marius@isnic.is Reykjavik ICELAND